Í tilefni af 1. maí

Eyþór Arnalds oddviti  í Reykjavík

Kaupmáttur launa skiptir launafólk miklu máli. Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga er rétt að fara yfir hvað síðustu ár í borginni hafa þýtt fyrir launafólk.

Húsnæði hefur hækkað um 50%

Húsnæðisskortur og lóðavandræði hafa leitt til þess að húsnæðisverð hefur snarhækkað í Reykjavík. Leiguverð fylgir kaupverði og nú eru auglýstar 50 fm íbúðir á 200 þúsund krónur á mánuði. Íbúðir fyrir „fyrstu kaup“ eru um 40 milljónir króna. Helst er að sjá auglýst lúxushúsnæði og er það aðallega keypt af útlendingum eða nýtt til útleigu fyrir ferðamenn. Þúsundir Reykvíkinga hafa flutt annað. Kaupmáttur launa skerðist vegna þessa enda fer stór hluti ráðstöfunartekna í að fjármagna húsnæði fólks. Loforð núverandi borgarstjóra um 3.000 leiguíbúðir fyrir „venjulegt fólk“ hefur á engan hátt ræst. Launafólk hefur með þessu orðið fyrir kjaraskerðingu í boði borgarstjóra Samfylkingarinnar. Húsnæðislausum hefur fjölgað gríðarlega og eru núna yfir 600 manns óstaðsettir í hús. Við viljum ná jafnvægi á húsnæðismarkaði með stórauknu framboði hagstæðra lóða.

Vinnuvikan hefur lengst

Stytting vinnuvikunnar er vinsælt umræðuefni og með bættri framleiðni verður hún smám saman að veruleika. En það sem hefur gerst á síðustu árum í Reykjavíkurborg er að vinnuvikan hefur lengst með versnandi samgöngum. Öfugt við það sem lofað var hefur hlutfall almenningssamgangna ekki aukist og er enn aðeins 4% af ferðum. Tafatími í umferð er raunveruleg lenging vinnuvikunnar. Sá sem ekur tvo tíma á dag hefur misst hálfan mánuð á ári í umferðartafir ef við tökum mið af ferðakönnun sem Samtök iðnaðarins hafa stuðst við. Þetta er ekkert annað en kjaraskerðing í boði borgarstjórnar. Við heitum því að snúa þessari þróun við og fara í raunhæfa og markvissa uppbyggingu með þeim lausnum sem við höfum kynnt. Við viljum stytta vinnuvikuna og stytta ferðatíma fólks.

Atvinnuöryggi er ógnað

Eitt af því sem hefur komið mér mest á óvart er hvað rekstur leikskólanna er brotakenndur árið 2018. Biðlisti barna er mjög langur eftir leikskólarými. Dagforeldrum hefur verið fækkað um 30%. En verst er að mannekla í leikskólunum hefur leitt til þess að börnum hefur verið vísað heim í öðrum hverjum leikskóla. Sumir foreldrar hafa þurft að vera með barnið sitt heilan mánuð heima eða taka barnið með í vinnuna. Árið 2018! Allt tal um jafnrétti kynjanna virkar innantómt þegar vitað er að oftar en ekki lendir þessi vandi á vinnandi konum. Ég veit til þess að einstaklingar hafa misst vinnu sína vegna þessa ástands. Við þetta verður ekki unað og höfum við heitið því að spara í stjórnkerfinu og setja aukið fé í leikskólana til að leysa þennan brýna vanda.

Bætt stjórnun borgarinnar er ávísun á bætt kjör fólks. Þess vegna þurfum við breytingar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. maí 2018