Skuldir borgarsjóðs: 22 milljónir á dag

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Sal­ur­inn er þétt­set­inn. Lang­flest­ir hlut­haf­arn­ir eru mætt­ir. Fyr­ir ligg­ur árs­skýrsla stjórn­ar og beðið er eft­ir ræðu stjórn­ar­for­manns­ins sem setið hef­ur í brúnni í átta ár og þar af síðustu fjög­ur sem hæstráðandi.

Það hef­ur verið bullandi góðæri í efna­hags­líf­inu. Hag­vöxt­ur með því mesta í sög­unni. Landsframleiðsla jókst um 3,8% á síðasta ári og hag­vöxt­ur árið á und­an var 7,4%. Rík­is­sjóður hef­ur verið rek­inn með af­gangi und­an­far­in ár og greitt skuld­ir hressi­lega niður.

En þegar hlut­haf­arn­ir fara yfir síðustu ár er fátt sem get­ur veitt þeim gleði. Tekj­ur hafa sannarlega hækkað veru­lega. Heild­ar­tekj­ur voru 28 millj­örðum hærri að raun­v­irði á síðasta ári en fyr­ir fjór­um árum og liðlega 41 millj­arði hærri en fyr­ir átta árum. Slík tekju­aukn­ing hefði átt að vita á gott.

Fyr­ir­tækið þeirra hef­ur safnað skuld­um – þær hafa tvö­fald­ast að raun­v­irði á átta árum. Sem hlut­fall af tekj­um hafa skuld­ir hækkað úr 56% í 85%. Launa­kostnaður hef­ur hækkað um 58% á föstu verðlagi án þess að hlut­haf­arn­ir geti stolt­ir bent á að þjón­usta við viðskipta­vini fyr­ir­tæk­is­ins hafi batnað. Þvert á móti.

Fyr­ir lok fund­ar­ins verða hlut­haf­arn­ir að ákveða hvort þeir vilji end­ur­nýja umboð stjórn­ar og stjórnarfor­manns­ins til næstu fjög­urra ára.

Átta millj­arðar á ári

Líkt og hlut­haf­ar á aðal­fundi þurfa íbú­ar Reykja­vík­ur að taka ákvörðun þegar þeir ganga að kjör­borði und­ir lok maí. Vilja þeir halda áfram á sömu braut eða telja þeir nauðsyn­legt að breyta um stefnu í mál­efn­um höfuðborg­ar­inn­ar. Borg­ar­bú­ar gera sér grein fyr­ir að óbreytt stefna fel­ur í sér að haldið verður áfram að safna skuld­um. Sé miðað við síðustu fjög­ur ár munu skuld­ir hækka um liðlega 22 millj­ón­ir króna á hverj­um ein­asta degi – virka daga sem helgi­daga – á næstu fjór­um árum. Þetta þýðir yfir 32 millj­arða skulda­aukn­ingu á kjör­tíma­bil­inu eða um átta millj­arða að meðaltali á ári.

Skuld­ir borg­ar­sjóðs hafa meira en tvö­fald­ast að raun­v­irði á síðustu átta árum. Í lok síðasta árs námu skuld­irn­ar tæp­um 99 millj­örðum króna. Bagg­inn sem íbú­arn­ir þurfa að bera hef­ur því orðið þyngri með hverju ári. Skuld­ir á hverja fjöl­skyldu nema um 3,8 millj­ón­um króna og hafa hækkað um tæp­lega 1,8 millj­ón­ir króna á föstu verðlagi frá árs­byrj­un 2010.

Hærri tekj­ur – lak­ari þjón­usta

A-hluti borg­ar­sjóðs hef­ur notið þess að tekj­ur hafa hækkað hressi­lega á síðustu árum. Á síðasta ári voru tekj­ur 41,4 millj­örðum króna hærri á föstu verðlagi en árið 2010, þegar Sam­fylk­ing­in og Besti flokk­ur­inn tóku við lykla­völd­un­um í Ráðhús­inu. Þetta er nær 56% raun­hækk­un. Á hverja fjöl­skyldu námu tekj­urn­ar tæp­lega 3,8 millj­ón­um króna eða 1,3 millj­ón­um hærri á föstu verðlagi en 2010. Þetta er 51% hækk­un að teknu til­liti til fólks­fjölg­un­ar.

Á síðasta ári voru tekj­urn­ar tæp­lega 28 millj­örðum hærri en 2014, – árið sem Dag­ur B. Eggerts­son varð form­lega borg­ar­stjóri.

Mik­il hækk­un tekna hefði að öðru óbreyttu átt að gefa borg­inni svig­rúm til að auka og bæta þjón­ustu við borg­ar­búa – gera borg­ina fal­legri, þrifa­legri og vist­vænni. Svig­rúmið hef­ur farið í eitt­hvað allt annað. For­eldr­ar eru úrkula von­ar um að börn þeirra fái leik­skóla­pláss, eldri borg­ar­ar búa við lak­ari þjón­ustu, út­hverfi borg­ar­inn­ar eru af­skipt og stjórn­sýsla borg­ar­inn­ar hef­ur lít­inn metnað til að leiðbeina og greiða úr er­ind­um íbúa og fyr­ir­tækja. Upp­lýs­ing­um er skipu­lega haldið frá borg­ar­bú­um og borg­ar­stjóri er fyr­ir löngu hætt­ur að bera ábyrgð á því sem fer úr­skeiðis. Lífs­gæði íbú­anna sem og annarra sem þurfa að reka er­indi í höfuðborg­inni hafa verið skert með því að hefta sam­göng­ur.

Stefna skorts­ins

Í skipu­lags­mál­um hef­ur stefna skorts­ins verið inn­leidd. Stjórn­end­ur borg­ar­inn­ar hafa sagt sig frá allri ábyrgð í hús­næðismál­um. Þeir telja það ekki leng­ur skyldu sína að tryggja nægj­an­legt fram­boð lóða á sann­gjörnu verði fyr­ir íbúðir – fjöl­býli, ein­býli og raðhús. Lóðaskort­ur í höfuðborg­inni hef­ur öðru frem­ur verið drif­kraft­ur mik­ill­ar hækk­un­ar á kaup­verði íbúða og hækk­un­ar húsa­leigu. Skort­stefnu í lóðamál­um hef­ur meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar fylgt eft­ir með frjórri hug­mynda­smíði við að hækka gjöld og álög­ur á hús­byggj­end­ur.

Kostnaðinn af skort­stefnu Reykja­vík­ur­borg­ar hef­ur al­menn­ing­ur þurft að greiða. Kaup­mátt­ur launa er lak­ari en ella og skuld­ir heim­il­anna hærri. Hækk­un fast­eigna- og leigu­verðs hef­ur bein áhrif á framfærslu­kostnað – ger­ir fólki erfiðara að eign­ast hús­næði eða leigja sóma­sam­lega íbúð fyr­ir fjölskyld­una á sann­gjörnu verði. Aðgerðir rík­is­sjóðs til að leysa vand­ann skila ekki þeim ár­angri sem að er stefnt. Hús­næðisstuðning­ur í formi vaxta- og leigu­bóta, aukið fjár­hags­legt svig­rúm með heim­ild til að nýta skatt­frjáls­an sér­eign­ar­sparnað til að kaupa fyrstu íbúð, eru étin að stór­um hluta upp á markaði þar sem heima­til­bú­inn skort­ur ræður verðmynd­un.

Framtíðar­sýn borg­ar­búa

Reyk­vík­ing­ar taka ákvörðun um framtíðina í kjör­klef­an­um 26. maí næst­kom­andi. Þeir vita að álög­ur – skatt­ar og gjald­skrár borg­ar­fyr­ir­tækja – verða ekki lækkaðar á kom­andi árum, með óbreyttri hugmynda­fræði. Lausa­tök­in í rekstri A-hluta borg­ar­sjóðs á síðustu átta árum grafa und­an allri von um að borg­ar­bú­ar fái að njóta hag­kvæmni stærðar­inn­ar með lægri álög­um og betri þjón­ustu. En íbúar Reykja­vík­ur geta treyst því að und­ir gunn­fán­um nú­ver­andi meiri­hluta verður haldið áfram að safna skuld­um, skort­stefn­an verður fest bet­ur í sessi og stöðugt stærri hluti hins dag­lega lífs fer í að sitja í biðröðum í hol­óttu gatna­kerfi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2018