Byggðastefna byggist á valfrelsi

Óli Björn Kárason, þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar:

Í fyrsta skipti í 150 ár fer íbú­um í sveit­um lands­ins fjölg­andi. Á sjö árum hef­ur fjöldi íbúa í strjál­býli í grennd við höfuðborg­ar­svæðið tvö­fald­ast. Víða um land hafa byggðarlög verið að styrkj­ast og efl­ast. At­vinnu­lífið er fjöl­breytt­ara. Upp­gang­ur í ferðaþjón­ustu hef­ur ekki aðeins skotið nýrri stoð und­ir at­vinnu­líf í þorp­um, bæj­um og sveit­um, held­ur gert mann­lífið auðugra – kryddað sam­fé­lagið með kaffi­hús­um, veit­inga­stöðum, hót­el­um og gisti­hús­um. Öflug­ur sjáv­ar­út­veg­ur og um­svifa­mikl­ar fjár­fest­ing­ar í landi og á sjó hafa gert líf­væn­leg­ar byggðir enn blóm­legri. Tækni­fram­far­ir hafa hægt og bít­andi inn­leitt val­frelsi í bú­setu.

Þetta hef­ur allt gerst án þess að tek­in hafi verið sér­stök stjórn­valdsákvörðun um að svona skyldi þró­un­in vera. Það voru ekki stjórn­mála­menn eða emb­ætt­is­menn „fyr­ir sunn­an“ sem leiddu þró­un­ina eða mörkuðu stefn­una. Fyr­ir­tæk­in og fólkið sjálft hef­ur séð tæki­fær­in og haft áræði og dugnað til að nýta sér þau.

Þórodd­ur Bjarna­son, pró­fess­or í fé­lags­fræði við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og fyrr­ver­andi stjórn­ar­formaður Byggðastofn­un­ar, vakti at­hygli á íbúðaþró­un­inni í viðtali við Rík­is­út­varpið fyr­ir skömmu. Hann bend­ir á að áhersl­ur í byggðaþróun breyt­ist þegar fólk fær að ráða því meira hvar það býr:

„Þegar iðnbylt­ing­in byrjaði þurfti að þjappa fólki sam­an í kring­um verk­smiðjurn­ar og svona. Það sem ger­ist núna er að staðsetn­ing­in skipt­ir minna máli. Þá fer þetta að snú­ast minna um hvar verðurðu að búa, held­ur hvar viltu búa?“

Metnaðarfull byggðaáætl­un

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, mælti fyr­ir til­lögu til stefnu­mót­andi byggðaáætl­un­ar á þingi síðastliðinn mánu­dag. Um það verður ekki deilt að áætl­un­in er metnaðarfull og und­ir flest er hægt að taka, en sumt ork­ar tví­mæl­is og annað er lík­lega til óþurft­ar og jafn­vel skaða.

Sam­kvæmt til­lög­unni á Ísland að vera í „far­ar­broddi með nú­tímainnviði, fram­sækna þjón­ustu, verðmæta­sköp­un, jöfn lífs­gæði og öfl­ug sveit­ar­fé­lög, sem geti ann­ast staðbund­in verk­efni og veitt íbú­um hag­kvæma og góða þjón­ustu með mark­mið sjálf­bærr­ar þró­un­ar að leiðarljósi. Nýj­asta tækni tengi byggðir og Ísland við um­heim­inn í jafn­vægi við um­hverfið.“ Landið allt á að vera í blóm­legri byggð og stuðla á að jöfnu aðgengi lands­manna að grunnþjón­ustu og at­vinnu­tæki­fær­um óháð efna­hag og bú­setu. Í umræðum um byggðaáætl­un­ina hélt ég því fram að lyk­il­orðið í áætl­un af þessu tagi ætti að vera val­frelsi borg­ar­anna – val­frelsi ætti að vera rauði þráður­inn í byggðastefnu stjórn­valda og raun­ar í öllu starfi þing­manna á öll­um sviðum. Tryggja á raun­veru­legt val­frelsi lands­manna til að taka ákvörðun um eig­in hag, þar á meðal hvar þeir vilja eiga bú­setu.

Innviðir og upp­skurður

Raun­hæf byggðastefna til framtíðar felst í því að fjár­festa í innviðum sam­fé­lags­ins; í góðum sam­göng­um, öfl­ugu fjar­skipta­kerfi og há­hraðaneti, tryggu flutn­ings­kerfi raf­orku, öfl­ugri heil­brigðisþjón­ustu, góðri mennt­un og sterkri lög­gæslu.

Við þurf­um að brjót­ast úr þeim hlekkj­um hug­ar­fars­ins að stofn­an­ir rík­is­ins og þjón­usta þeirra skuli bund­in við ákveðna fast­eign í Reykja­vík. Fjórða iðnbylt­ing­in ger­ir okk­ur kleift að nálg­ast rekst­ur rík­is­ins og skipu­lag stofn­ana með allt öðrum og hag­kvæm­ari hætti en áður. Þegar innviðirn­ir eru í lagi, ekki síst sam­göng­ur og fjar­skipti, er það raun­hæf­ur draum­ur að æ fleiri starfs­menn stofn­ana rík­is­ins og fyr­ir­tækja á al­menn­um markaði geti tekið sjálf­stæða ákvörðun um staðsetn­ingu, – öðlist val­frelsi um hvar þeir vilja búa, í stað þess að vera þvingaðir til að búa þar sem störf við hæfi er að fá.

Skyn­sam­leg byggðastefna krefst þess að við átt­um okk­ur á ein­faldri staðreynd: Fá­menn þjóð hef­ur ekki efni á því að reka flókið og dýrt stjórn­kerfi. Upp­skurður í stjórn­kerf­inu og stofn­un­um rík­is­ins þar sem verk­efn­um er út­hýst til einkaaðila er væn­leg leið til að styrkja lands­byggðina. For­senda þess eru trygg­ar sam­göng­ur og öfl­ug há­hraðateng­ing um allt land. Þannig verður súr­efni hleypt í byggðir lands­ins með auknu at­hafna­frelsi, auk­inni sam­keppni og nýj­um og arðbær­um störf­um.

Góður ásetn­ing­ur og tví­skinn­ung­ur

Ég hef áður haldið því fram á þess­um stað að byggðastefna sem fylgt hef­ur verið síðustu ára­tugi sé dæmi um hvernig leiðin til glöt­un­ar er oft vörðuð góðum ásetn­ingi, en einnig tví­skinn­ungi. Stjórn­mála­maður sem í öðru orðinu seg­ist í bar­áttu fyr­ir öfl­ugri lands­byggð en krefst í hinu orðinu stór­auk­inna álaga á sjáv­ar­út­veg er ekki sam­kvæm­ur sjálf­um sér. Þeir eru til sem telja það eft­ir­sókn­ar­vert og jafn­vel nauðsyn­legt að tvö­falda virðis­auka­skatt á ferðaþjón­ustu og draga þar með úr sam­keppni­hæfni henn­ar við önn­ur lönd. Þeir hinir sömu halda síðan há­stemmd­ar ræður um hve mik­il­væg ferðaþjón­ust­an er og hve upp­bygg­ing henn­ar hef­ur skipt miklu fyr­ir dreifðar byggðir lands­ins.

Hóf­semd í skatta­mál­um og ein­falt reglu­verk ýtir und­ir ný­sköp­un og styrk­ir lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki – ekki aðeins á höfuðborg­ar­svæðinu held­ur ekki síður á lands­byggðinni. Færa má sterk rök fyr­ir því að flókið reglu­verk og mikl­ar álög­ur legg­ist þyngra á fyr­ir­tæki á lands­byggðinni en þau sem starfa á höfuðborg­ar­svæðinu, þar sem allt stjórn­kerfið er staðsett og flest­ar stofn­an­ir rík­is­ins.

Ný byggðastefna verður ekki mörkuð án þess að hafa það að leiðarljósi að ein meg­in­for­senda líf­væn­legr­ar byggðar er arðsam­ur sjáv­ar­út­veg­ur og skil­virk­ur og frjáls land­búnaður. Byggðastefna sem miðar að því að efla byggðir lands­ins get­ur ekki fal­ist í of­ur­skatt­heimtu á sjáv­ar­út­veg og op­in­berri of­stjórn í land­búnaði, þar sem dug­mikl­um bænd­um er haldið niðri, eða gera sam­keppn­is­stöðu ferðaþjón­ust­unn­ar lak­ari.

Kannski er ein­fald­ast að lýsa skyn­sam­legri byggðastefnu með eft­ir­far­andi hætti:

Byggðastefna framtíðar­inn­ar felst fyrst og síðast í því að draga úr op­in­ber­um af­skipt­um og áhrif­um stjórn­mála­manna og emb­ætt­is­manna á dag­legt líf al­menn­ings – að tryggja val­frelsi borg­ar­anna til starfa og bú­setu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2018.