Ísland í forystu Norðurskautsráðsins

Umhverfi norðurslóða er að breytast – og það hratt. Vegna hlýnunar jarðar hækkar sjávarhitinn, hafísinn minnkar og jöklarnir hopa. Miðað við spár vísindamanna má af þessum sökum búast við ómældum áhrifum á vistkerfi lands og sjávar. Um leið gætu gjöfular náttúruauðlindir svæðisins orðið aðgengilegri, siglingar auðveldari og ræktunarskilyrði betri. Fyrir þær fjórar milljónir manna sem búa á þessum harðbýlu slóðum er áríðandi að spornað sé við neikvæðum áhrifum þessara breytinga og þau tækifæri sem í þeim kunna að felast verði fullnýtt með sjálfbærni að leiðarljósi. Samspil umhverfisverndar og auðlindanýtingar verður að vera í jafnvægi.
Eftir rúmt ár tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu, mikilvægasta vettvangi umræðu og ákvarðanatöku um um málefni norðurslóða. Í því eiga sæti Norðurlöndin, Bandaríkin, Kanada og Rússland, auk samtaka frumbyggja. Samstarfið hefur vaxið ört frá því ráðið var stofnað árið 1996. Fjölgun áheyrnaraðila og aukin þátttaka þeirra í ýmsum verkefnum ráðsins sýnir glöggt hve víðtæka skírskotun málefni norðurslóða hafa. Þá hefur stofnun hliðarsamtaka við ráðið gefið samstarfinu nýja vídd. Dæmi um það er Efnahagsráð norðurslóða sem fulltrúar viðskiptalífs aðildarríkjanna skipa.

Undirbúningur fyrir formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu hófst fyrir alvöru á síðasta ári. Þar hef ég lagt ríka áherslu á víðtækt samráð hér innanlands, bæði á á pólitískum vettvangi en einnig við atvinnulífið, háskólasamfélagið, frjáls félagasamtök, stjórnsýslu. Nýverið ræddi ég við fulltrúa í utanríkismálanefnd Alþingis þar sem fram kom mikil samstaða um mikilvægi formennsku Íslands og málaflokkinn í heild. Þessa samstöðu viljum við treysta enn frekar í sessi.

Í þau tvö ár sem Ísland fer með formennsku í Norðurskautsráðinu stýra Íslendingar starfsemi ráðsins og móta áherslurnar. Í þessu felst einstakt tækifæri til víðtækrar samvinnu um málefni norðurslóða og til að láta gott af sér leiða í þágu svæðisins og íbúa þess. Viðbrögð við yfirvofandi breytingum á umhverfi norðurslóða eru þar tvímælalaust mikilvægasta áskorunin. Í formennskutíð sinni mun Ísland því leggja áherslu hagfellda þróun á norðurslóðum með sjálfbærni að leiðarljósi í öllu tilliti: umhverfislegu, efnahagslegu og félagslegu.