„Ég vil gera átak í að koma þessu í lag“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Stjórnkerfið hefur ekki verið að standa sig í að veita svör þegar spurt er um hvort jarðir eru lausar til ábúðar eða hvort standi til að koma þeim í leigu eða sölu. Ég vil gera átak í að koma þessu í lag“, sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í dag við sérstaka umræðu um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir, en málshefjandi var Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin ætli að  kanna leiðir til að setja skilyrði við kaupum á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggðar, landnýtingu og umgengni um auðlindir. Sú stefnumótun er nú í vinnslu á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Fram kom í ræðu Bjarna að ríkissjóður væri stærsti einstaki landeigandi jarða á Íslandi og að forsendur eignarhalds ríkisins væru mjög ólíkar og að rök fyrir eignarhaldinu geti breyst með tímanum. Í grunninn hafi það þó verið til að þjóna almannahagsmunum.

Á undanförnum árum hefur jörðum í eigu ríkisins farið fækkandi. Um síðustu aldamót voru um 550 jarðir í eigu ríkisins en þeim hefur fækkað í um 450 á síðustu tuttugu árum. Þessi fækkun er einkum til komin vegna aukinnar sölu á landi til sveitarfélaga, sölu til ábúenda í samræmi við kaupréttarheimildir og sölu jarða á almennum markaði.

„Það liggur engin heildstæð áætlun um sölu þeirra né útleigu. Við þurfum að flokka þessar jarðir og spyrja okkur hvernig best sé að ráðstafa þeim í þágu þeirra markmiða sem við setjum“, sagði Bjarni.

Hann sagði brýnt að þessari vinnu ljúki sem fyrst og að vinnunni þurfi að koma m.a. fulltrúar sveitarstjórna og Bændasamtakanna auk fulltrúa stjórnkerfisins.

Bjarni sagði að heildarleigutekjur af ríkisjörðum í dag séu litlar og standi ekki undir eðlilegri ávöxtun. Ábúðarkerfið hafi á umliðnum árum verið fjármagnað með sölu ríkisjarða.

„Það er ekki sjálfbær leið til lengri tíma. Þetta er auðvitað bara eitt sjónarhorn á málinu, að spyrja hvernig ábúðarkerfið hefur komið út í ríkisfjármálalegu tilliti,“ sagði ráðherra og nefndi einnig mikilvægt að horfa til byggðalegra þátta og matvælaöryggissjónarmiða.

Hann sagðist að lokum vonast til að eigendastefnan geti fallið vel að heildstæðri sýn sem nú sé unnið að og að innan skamms verði hægt að bregðast við þeim athugasemdum sem þegar hafi komið fram.

Hægt er að sjá alla umræðuna á vef Alþingis hér.