Yfirlýsingar Miðflokksins gjörsamlega innihaldslausar

„Yfirlýsingar Miðflokksins fyrir kosningar voru gjörsamlega innihaldslausar. Hugmyndir um að það væri hægt að afhenda íslenskum almenningi einn þriðja af Arion banka, banka sem ríkið yfirhöfuð átti ekkert og myndi þurfa að borga 60–70 milljarða til þess að eignast þann hlut, voru innihaldslaust blaður, engin innstæða fyrir því,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra við óundirbúinni fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins á Alþingi 22. febrúar.

Sagði Bjarni að það þýddi lítið að blása upp moldviðri um hluti sem hafi legið fyrir í samningum í mörg ár og væru hluti af vel heppnuðum aðgerðum stjórnvalda til þess að breiða yfir „gjörsamlega mislukkaða kosningastefnu Miðflokksins sem nú er að renna upp fyrir mönnum að engin innstæða var fyrir.“

Í framhaldinu spurði Bjarni þingmanninn: „Eða hvað eru það margir tugir milljarða sem háttvirtur þingmaður er tilbúinn að reiða fram til þess að kaupa hlut í fjármálafyrirtæki þannig að hægt sé að efna kosningaloforð Miðflokksins um að dæla út 70 milljörðum og gjaldfæra á ríkissjóð?“

Bjarni minnti á að Bankasýslan hefði farið yfir það með efnahags- og viðskiptanefnd hvernig atburðir gerðust varðandi virkjun kaupréttar og jafnframt hver afstaða ríkisins, sem hluthafa, hefði verið á hluthafafundum um þessi efni.

Þá sagði Bjarni einnig: „Við gerðum afkomuskiptasamning við eigendur bankans, Kaupþing. Hann virkar þannig að ef bankinn selst á bilinu 100–140 milljarða skiptist það verð þannig að einn þriðji rennur beint til ríkisins. Ef hann selst á bilinu 140–160 milljarðar skiptist kaupverðið að hálfu milli eigandans og ríkisins. Ef bankinn selst, eins og háttvirtur þingmaður virðist trúa, jafnvel á meira en 160 milljarða, þ.e. hlutur Kaupþings, þá fær ríkið þrjá fjórðu af kaupverðinu á grundvelli afkomuskiptasamnings. Þannig að ef þetta gengur allt eftir í alþjóðlegu útboði, sem ætti að vera ágætisleið til að finna hvert sé raunverulegt virði bankans, þá skilar það sér mjög ríkulega beint til ríkisins.“

Sjá má alla umræðuna á vef Alþingis hér.

Hér má einnig finna ræðu Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á vef Alþingis frá 20. febrúar þar sem hann fjallaði um málið undir liðnum „störf þingsins“. Þar velti hann upp þeirri spurningu hvort þingmenn væru að hvetja til þess að íslenska ríkið standi ekki við þá samninga sem það hafi gert. Einnig hvaða skilaboð það sendi m.a. erlendum aðilum ef íslenska ríkið ætli ekki að virða gerða samninga.