Aslaug Arna

„Einn góðan bíl, takk”

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og ritari Sjálfstæðisflokksins.

 Leigu­bílaþjón­usta hér á landi fel­ur í sér ein­ok­un, stöðnun og skort á ný­sköp­un sem kem­ur helst niður á neyt­end­um en líka á bíl­stjór­un­um sjálf­um. Í fyrra skipaði Jón Gunn­ars­son, þáv. samgönguráðherra, starfs­hóp um breyt­ing­ar á markaði leigu­bílaþjón­ustu, sér í lagi vegna þess að nú­ver­andi aðgangs­hindr­an­ir brjóta gegn ákvæðum EES-samn­ings­ins. Það verður því ekki hjá því komist að breyta þessu ástandi og ég bind mikl­ar von­ir við að þar verði sjón­ar­mið um aukið val­frelsi í önd­vegi.

Marg­vís­leg rök eru fyr­ir að breyta nú­ver­andi ástandi og það ætti að vera öll­um ljóst að markaður með eins mikl­um hindr­un­um og þessi er ekki besti kostur­inn. Af­nám hindr­ana myndi hafa já­kvæð áhrif í för með sér. Að af­nema tak­mörk á fjölda leigu­bíla­leyfa myndi bæði fjölga þeim sem sinna þjón­ust­unni, lækka verð og opna fyr­ir auk­inni ný­sköp­un í grein­inni. Auk­in ný­sköp­un mun stuðla að auknu öryggi, meiri sveigj­an­leika, fjöl­breytt­ari þjón­ustu, meiri sam­nýt­ingu bíla, bættri um­ferðar­menn­ingu o.s.frv.

Umræðan um þessi mál snýst gjarn­an um eitt ákveðið fyr­ir­tæki sem hef­ur víða um heim stækkað hratt. Umræðan um frelsi á leigu­bíla­markaði á ekki að snú­ast um ein­stök fyr­ir­tæki held­ur um þau tækifæri sem frelsið býður upp á. Málið snýst til dæm­is um at­vinnu­frelsi og tæki­færi til að þróa nýj­ar lausn­ir sem nú­ver­andi reglu­verk kem­ur í veg fyr­ir. Málið snýst líka um val­frelsi ein­stak­lings­ins og tak­mörkuð inn­grip rík­is­ins í heil­brigða sam­keppni.

Leigu­bíla­leyf­um hef­ur fjölgað um rétt 11% á síðustu 15 árum. Á sama tíma hef­ur Íslend­ing­um fjölgað um rúm­lega 17% auk þess sem fjöldi er­lendra ferðamanna hér hef­ur meira en sex­fald­ast. Núverandi fyr­ir­komu­lag er ósveigj­an­legt og hamlandi fyr­ir bíl­stjór­ana sjálfa og ekki síður fyr­ir neyt­end­ur, sem líta ekki á leigu­bíla sem hluta af sín­um dag­legu sam­göngu­kost­um.

Það er eng­in ástæða fyr­ir Íslend­inga að drag­ast aftur úr þegar kem­ur að þess­um mál­um. Við sjá­um skýr merki þess, til að mynda með inn­komu Costco, H&M; og fleiri versl­ana, að lands­menn vilja eiga val þegar kem­ur að versl­un og þjón­ustu. Það er ekki hlut­verk rík­is­ins að gæta að einka­leyf­um í versl­un og þjón­ustu held­ur að búa þannig um að leik­regl­ur veiti öll­um færi á að taka þátt – al­menn­ingi til hagsbóta.

Stund­um er hlut­un­um stillt upp þannig að þeir sem tala fyr­ir auknu frelsi þurfi að færa fram bestu rök­in fyr­ir því af hverju það ætti að auka frelsi. Þessu þarf að snúa við. Þeir sem tala fyr­ir því að viðhalda forneskju­leg­um kerf­um með tak­mörk­un­um og hindr­un­um þurfa að færa fyr­ir því sann­fær­andi rök af hverju svo ætti að vera áfram. Um leigu­bíla­akst­ur þurfa að gilda sömu lög­mál og regl­ur og gilda um aðra versl­un og þjón­ustu. Fyrsta skrefið er að af­nema þær höml­ur sem ríkið hef­ur sett á grein­ina.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar.