Látum sérfræðingana bara um þetta!

Óli Björn Kárason þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar 

„Í flóknu þjóðfé­lagi nú­tím­ans koma til önn­ur öfl í sjálfu stjórn­kerf­inu en Alþingi sem lát­laust láta meira að sér kveða. Það er embætt­is- og sér­fræðinga­kerfið m.a., sem ráðherr­ar eru dag­lega hnýtt­ir við vegna starfa sinna. Ég álít, að það sé veru­leg hætta á því að Alþingi tapi lög­gjaf­ar­vald­inu yfir til rík­is­stjórn­ar og embætt­is- og sér­fræðinga­valds­ins. Sum­ir vilja e.t.v. segja að slíkt komi aldrei til því auk lög­gjaf­ar­valds­ins ráði meiri hluti Alþing­is rík­is­stjórn og því séu völd þess og áhrif æv­in­lega tryggð, hvernig sem að er farið. En málið er ekki svona ein­falt. Alþingi gæti í reynd orðið lítið annað en kjör­manna­sam­koma til þess að velja rík­is­stjórn, og eins kon­ar færi­band fyr­ir lög­gjöf sem ná­lega að öllu leyti væri mótuð af rík­is­stjórn og þó að veru­legu leyti embætt­is- og sér­fræðinga­kerf­inu. Og það er ekk­ert í sjálfri stjórn­ar­skránni eða í lög­un­um sem dug­ar til þess að hindra að svo illa gæti farið.“

Þannig komst Ey­steinn Jóns­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, að orði í umræðum á Alþingi í nóv­em­ber 1968. Ey­steinn hafði fyrr á ár­inu látið af embætti for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins. Orðin lét hann falla í yf­ir­grips­mik­illi ræðu um eig­in til­lögu til þings­álykt­un­ar um að „þing­for­set­um ásamt ein­um full­trúa frá hverj­um þing­flokki að íhuga og end­ur­skoða starfs­hætti Alþing­is“.

Ey­steinn var sann­færður um nauðsyn þess að þing og þjóð héldi vöku sinni svo ekki færi illa. Alþingi yrði að gera skyldu sína og halda sín­um hlut. En þótt hann hefði áhyggj­ur af embætt­is- og sér­fræðinga­vald­inu, vildi Ey­steinn ekki „forðast sér­fræðinga eða minnka þeirra þjón­ustu“. Ey­steinn taldi hins veg­ar nauðsyn­legt að „styrkja Alþingi, bæta starfs­skil­yrði Alþing­is og alþing­is­manna, þannig að Alþingi geti skipað þann sess í þjóðlíf­inu, sem því ber, haldið sínu, svo að jafn­vægi ekki rask­ist og hægt sé að not­færa sér á far­sæl­an hátt vinnu þýðing­ar­mik­illa sér­fræðinga, sem ómiss­andi eru hverju menn­ing­ar­ríki“.

Tæp hálf öld er frá því að Ey­steinn varaði við að Alþingi yrði aðeins „færi­band fyr­ir lög­gjöf“ sem að veru­legu leyti væri mótuð af embætt­is- og sér­fræðinga­kerf­inu. Því miður væri hægt að flytja svipaða ræðu í dag og taka dýpra í ár­inni en Ey­steinn gerði.

Reikn­ar sín­ar pró­sent­ur sjálf­ur

Auðvitað þurfa þing­menn ekki síður en ráðherr­ar að leita til sér­fræðinga – fræðimanna á ýms­um sviðum. En þeir verða hins veg­ar að vera þess um­komn­ir að „reikna“ sín­ar pró­sent­ur sjálf­ir, líkt og Lúðvík Jóseps­son á árum áður. Þing­menn, al­menn­ing­ur og þó ekki síður fjöl­miðlung­ar, verða að geta nýtt sér þekk­ingu og ráðlegg­ing­ar sér­fræðinga og emb­ætt­is­manna en hafa burði til að leggja sjálf­stætt mat á erfið viðfangs­efni og þor til að taka ákv­arðanir.

Brynj­ar Ní­els­son, fé­lagi minn, gerði sér­fræðinga að um­tals­efni á fés­bók­arsíðu sinni fyr­ir nokkr­um dög­um og skrifaði meðal ann­ars:

„Ég minn­ist margra góðra „sér­fræðinga“ sem voru sér­stak­lega áber­andi í tíð Jó­hönnu­stjórn­ar­inn­ar. Þeir sögðu ráðherr­um í þeirri stjórn að þjóðin yrði að greiða Ices­a­ve-skuld­ina. Ekki bara að það væri laga- og siðferðis­skylda held­ur yrðum við fá­tæk­asta þjóð í heimi ef skuld­in yrði ekki greidd. Sömu „sér­fræðing­um“ fannst al­ger lög­leysa að láta slita­bú­in og vog­un­ar­sjóðina sæta ein­hverj­um tak­mörk­un­um og greiða skatta. Svona mætti lengi telja.“

Um það verður vart deilt að það var þjóðinni til gæfu að til voru stjórn­mála­menn sem höfðu þrek til að and­mæla sér­fræðing­um og fræðimönn­um. Yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti lands­manna var þeim sam­mála og „reiknaði út sín­ar pró­sent­ur“ þvert á ráðlegg­ing­ar sér­fræðinga.

Lang­flest­ir þeirra sem fylla hóp sér­fræðinga og fræðimanna leggja metnað sinn í að gefa góð ráð – veita sína bestu ráðgjöf. En til að þing­menn, ráðherr­ar og ekki síður al­menn­ing­ur geti lagt mat á leiðbein­ing­ar og ráð er nauðsyn­legt að upp­lýs­ing­ar um bak­grunn álits­gjaf­anna – sér­fræðing­anna og fræðimann­anna – liggi fyr­ir. Sjald­an eða aldrei er greint frá því hvort og þá hvaða hags­muna þeir eiga að gæta. Þeir eru sjald­an spurðir.

Völd og ábyrgð

Á síðustu ára­tug­um hef­ur verið komið á fót ýms­um úr­sk­urðar­nefnd­um, sem starfa und­ir ýms­um nöfn­um s.s. kær­u­nefnd­ir, mál­skots­nefnd­ir, áfrýj­un­ar­nefnd­ir og mats­nefnd­ir. Í rit­gerð Friðgeirs Björns­son­ar, fyrr­ver­andi dóm­stjóra, og for­sæt­is­ráðuneytið gaf út árið 2005, kem­ur fram að „mjög hef­ur færst í vöxt að lög­gjaf­inn komi á fót úr­sk­urðar­nefnd­um í stjórn­sýsl­unni og úr­sk­urðar­vald á ákveðnum sviðum henn­ar því ekki fengið ráðherr­um eða úr­sk­urðar­vald sem þeir áður höfðu frá þeim tekið“. Árið 2004 voru nefnd­irn­ar 42 en sam­kvæmt skrif­leg­um svör­um við fyr­ir­spurn­um Atla Gísla­son­ar, þing­manns VG, árið 2012 voru úr­sk­urðar­nefnd­ir orðnar 46.

Hér skal ekki dregið í efa að marg­ar nefnd­anna þjóna góðum til­gangi en svo virðist hins veg­ar sem í raun hafi lög­gjaf­inn og ráðherr­ar af­salað sér áhrif­um og völd­um án þess að því fylgi ábyrgð.

Friðgeir bend­ir á að ráðherr­ar beri ekki ábyrgð á úr­sk­urðar­nefnd­un­um og starfi þeirra „enda þótt þeir beri ábyrgð á stjórn­ar­fram­kvæmd­um öll­um sam­kvæmt 14. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar“. Nefnd­irn­ar „eigi að vera sjálf­stæðar og óháðar og vand­séð er að ábyrgð á störf­um þeirra beri nokk­ur ann­ar en nefnd­ar­menn sjálf­ir“. Friðgeir tek­ur ekki af­stöðu til þess hvort þró­un­in sé nei­kvæð eða já­kvæð en seg­ir það „eðli­legt og nauðsyn­legt að með henni sé fylgst og henni stýrt eft­ir þeim póli­tíska vilja sem fyr­ir hendi er hverju sinni“.

Umræða um kosti og galla þess að „fram­selja“ vald til úr­sk­urðar­nefnda er ekki fyr­ir­ferðar­mik­il, en mér er til efs að Ey­steini Jóns­syni hefði hugn­ast sú mikla fjölg­un sem orðið hef­ur. Og eitt er ljóst: Eft­ir því sem valdsvið úr­sk­urðar­nefnda eykst og þeim fjölg­ar, því fjar­læg­ari verður sú hug­mynd að valdið sé sótt til al­menn­ings og að kjörn­ir full­trú­ar séu umboðsmenn kjós­enda. Gegn þess­ari hug­mynd standa því miður of marg­ir sér­fræðing­ar og fræðimenn. Jafn­vel í þingsal hef­ur sú hugs­un náð að festa ræt­ur að best sé að láta sér­fræðing­ana um þetta flest. Alþingi af­greiðir síðan mál­in á færi­bandi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 7. febrúar 2018.