Ársreikningur Borgarbyggðar 2016; Góð rekstrarafkoma og traustur efnahagur

Verulegur viðsnúningur hefur náðst í rekstri Borgarbyggðar á síðustu árum. Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2016 var lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar þann 7. apríl og sveitarstjórn afgreiddi reikninginn til síðari umræðu á fundi sínum í maí. Niðurstöður og lykiltölur ársreikningsins bera með sér að rekstur sveitarfélagsins gekk vel á árinu 2016. Afkoma sveitarsjóðs er mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá er efnahagur sveitarfélagsins traustur en heildartekjur í samstæðu A+B hluta voru 3.935 m.kr. sem eru 347 m.kr. hærri fjárhæð en áætlað var í fjárhagsáætlun.

 

Fréttatilkynningin í heild sinni:

Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2016 var lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn Borgarbyggðar þann 7. apríl. Sveitarstjórn afgreiddi reikninginn til síðari umræðu á fundi sínum í maí. Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta. Annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur sveitarsjóðs sem að mestu leyti er fjármagnaður með skatttekjum. Hins vegar er B-hluti sem eru stofnanir í eigu sveitarfélagsins og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta Borgarbyggðar fellur sorphirða, félagslegar íbúðir, Reiðhöllin Vindási, fjallskilasjóðir, fasteignir Hjálmakletts og fjármögnun Hjúkrunarheimilisins að Brákarhlíð.

Niðurstöður og lykiltölur ársreikningsins bera með sér að rekstur sveitarfélagsins gekk vel á árinu 2016. Afkoma sveitarsjóðs er mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá er efnahagur sveitarfélagsins traustur. Verulegur viðsnúningur hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins á síðustu árum.

Rekstrarniðurstaða í samstæðu A+B hluta er 427,1 m.kr. að teknu tilliti til reiknaðra liða. Það er 196,1 m.kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Rekstrartekjur A-hluta sveitarsjóðs eru 3.582,6 m.kr., þar af voru skatttekjur 1.992 m.kr. og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 1.018 m.kr. Heildartekjur í samstæðu A+B hluta voru 3.935 m.kr. sem eru 347 m.kr. hærri fjárhæð en áætlað var í fjárhagsáætlun.

Laun og launatengd gjöld námu alls 2.045 m.kr. hjá A+B hluta samstæðu en 1.898 m.kr. hjá A-hluta. Stöðugildi í árslok voru 257 og hafði þeim fjölgað um 1,8 á árinu. Kaup á vörum og þjónustu voru 1.243 m.kr. hjá A+B hluta og 1.139 m.kr. hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld voru 37,9 m.kr. hjá A+hluta.

Veltufé frá rekstri var 506,3 m.kr. hjá A+B hluta (364 m.kr. 2015) og 544 m.kr. hjá A-hluta (266 m.kr. 2015). Það gerir 14,1% af heildartekjum hjá A-hluta sem er hækkun frá 8,5% á fyrra ári. Eignir voru seldar fyrir 237 m.kr. á árinu. Langtímaskuldir A-hluta eru einungis 2,5 * hærri en veltufé frá rekstri miðað við að þær voru tæplega sex falt veltuféð á árinu 2015. Veltufjárhlutfall (hlutfall lausaskulda og lausafjármuna) er 1,58 miðað við 0,83 á sl. ári.

Skuldahlutfall A+B hluta er 119% og fyrir A-hluta er það 77%. Í sveitarstjórnarlögum er miðað við að skuldahlutfall fari ekki yfir 150%. Afborganir langtímalána voru 273 m.kr   á árinu 2017 og lækkuðu langtímaskuldir A+B hluta um 253 m.kr. milli ára.

Skuldaviðmið var 78% fyrir A+B hluta í árslok og 56% fyrir A-hluta.

Heildarskuldir A+B hluta eru 4.671 m.kr. og heildarskuldir A-hluta 2.767 m.kr. Lífeyrisskuldbindingar eru 788 m.kr. og hækkuðu þær um 77 m.kr. á árinu. Eiginfjárhlutfall er A+B hluta er 35% en A-hluta 48%.

Handbært fé í árslok var alls 641 m.kr. hjá A+B hluta.

Fjárfestingar voru minni á árinu 2016 en ætlað var þar sem undirbúningur fyrirhugaðra fjárfestinga var tímafrekari en ætlað var. Fjárfest var fyrir 68 m.kr. hjá A+B hluta en eignir seldar fyrir 236 m.kr.

Íbúar Borgarbyggðar voru 3.679 í árslok 2016 og hafði fjölgað um 39 frá árinu á undan.

Rekstur sveitarfélagsins stóð sterkum fótum á árinu og efnahagsleg staða er sterk. Það er ánægjuefni því góður rekstur og sterkur efnahagur eykur svigrúm sveitarfélagsins til aðgerða íbúunum til hagsbóta. Í mörg horn er að líta í þeim efnum.

Starfsfólki sveitarfélagsins er þakkað gott samstarf við rekstur sveitarfélagsins á árinu. Sá árangur sem náðst hefur við að bæta rekstur sveitarfélagsins hefði ekki náðst nema með öflugu starfsfólki sem vinnur þétt með kjörnum fulltrúum.