Vökult auga stjórnlyndrar elítu

Eftir Óla Björn Kárason: „Það er sagt merki um heilbrigt og opið starf stjórnmálaflokks að leyfa flokksmönnum að velja á framboðslista, en allt undir vökulu auga elítunnar.“
Sjálfstæðismenn hafa alla tíð lagt áherslu á að leikreglur samfélagsins séu skýrar, einfaldar og gagnsæjar og umfram allt að allir skulir standa jafnir fyrir lögum og reglum. Stjórnlyndir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins – sem oftar en ekki vilja kenna sig við frjálslyndi – eru hins vegar sannfærðir um ágæti þess að setja lög og reglur um flest ef ekki allt er viðkemur mannlegri hegðun. Þar skiptir jafnræði einstaklinganna minnstu – mikilvægast er að ná fram ákveðnum pólitískum markmiðum. Þess vegna er talið eðlilegt að breyta stöðugt leikreglunum til að fá „hina einu réttu niðurstöðu“.„Almenningur er fávís og því þarf að hafa vit fyrir honum og verja gagnvart sjálfum sér. Auðvitað er þetta aldrei sagt upphátt en er þó grunnstefið í hugmyndafræði stjórnlyndra manna, sem telja nauðsynlegt að ríkið sé alltumlykjandi.“ Þannig hófst grein sem ég skrifaði hér í Morgunblaðið í byrjun mars síðastliðins. Ég hélt því fram að hugmyndafræði stjórnlyndis hefði gegnsýrt stjórnsýslu, fjölmiðla og stjórnmál. Ídeólógía barnfóstru ríkisins sé ráðandi þar sem ekkert vandamál er talið of lítið eða of stórt til að barnfóstran sé ekki kölluð á vettvang.

Nomenklatúran

Hinir stjórnlyndu vilja að barnfóstran sé alltaf á vaktinni – passi að almenningur taki „réttar“ ákvarðanir og grípi til sinna ráða ef hann villist af leið. Þetta er ný-frjálslyndi samtímans. Nomenklatúra hins pólitíska rétttrúnaðar tekur ákvörðun um hvað sé rétt og hvað rangt. Elítan telur sér skylt að beita öllum tiltækum ráðum til að „leiðrétta“ ákvarðanir kjósenda sem taldar eru skaðlegar og vitlausar.Nomenklatúran – elítan – er sannfærð um að lýðræðið sé af hinu góða, enda fylgi almenningur leiðsögn þeirra sem best eru til þess fallnir að taka mikilvægar ákvarðanir. Það er sagt merki um heilbrigt og opið starf stjórnmálaflokks að leyfa flokksmönnum að velja með beinum hætti á framboðslista fyrir kosningar, en allt undir vökulu auga elítunnar sem fær barnfóstruna til að „lagfæra“ það sem miður fer. Þetta þykir sjálfsagt meðal stjórnlyndra stjórnmálaflokka en Sjálfstæðisflokkurinn hefur neitað að gangast undir völd fámennrar nomenklatúru.

Grunnstef

Öflug millistétt og sjálfstæðir atvinnurekendur eru burðarásar allra velferðarsamfélaga. Þessir burðarásar þrífast aðeins ef allir eru jafnir fyrir lögum og reglum. Velmegun frjálsrar þjóðar er undir því komin að þessari einföldu reglu réttarríkisins sé fylgt.En með sama hætti og nauðsynlegt er að tryggja jafnræði verður að tryggja stöðugleika og koma í veg fyrir að leikreglum sé breytt í tíma og ótíma (jafnvel eftir á), þannig að útilokað sé að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíðina.

Einstaklingar og fyrirtæki taka mikilvægar ákvarðanir á hverjum degi og skipuleggja framtíðina. Ákvarðanir sem teknar eru í góðri trú eru að engu gerðar þegar leikreglum er breytt. Fjárhagslegum forsendum fjölskyldu, sem ræðst í íbúðarkaup, er gjörbreytt þegar stjórnmálamenn ákveða að hækka opinber gjöld og skatta. Stjórnendur fyrirtækis geta ekki tekið ákvörðun um fjárfestingar í nýjum tækjum, fasteignum og fjölgun starfsmanna, vegna ótta við að skattkerfinu sé breytt eða lögum umbylt og stoðunum kippt undan rekstrinum. Þeir eiga það jafnvel á hættu að stjórnvöld geri ívilnunarsamninga við keppinauta, sem í krafta sérréttinda stunda undirboð á vöru og þjónustu, jafnt innanlands sem utan, eins og dæmi eru um.

Heimilin og atvinnulífið halda að sér höndum í umhverfi þar sem regluverkið er síbreytilegt og jafnræði er brotið. Afleiðingin er stöðnun og verri lífskjör. Jafnræði, stöðugleiki og skýrar leikreglur eru forsenda framfara, ekki aðeins í efnahagslífinu heldur í samfélaginu öllu – í menningu, listum og stjórnmálum. Og það segir sig sjálft að eftir því sem leikreglurnar eru einfaldari og skýrari því minni ástæða er til þess að breyta þeim.

Súrefni stjórnlyndis

Stjórnlyndi og pólitísk rétthugsun ganga þvert á grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins um frelsi einstaklingsins til orðs og æðis. Birgir Kjaran var einn merkasti þing- og hugsjónamaður Sjálfstæðisflokksins. Í erindi sem hann flutti árið 1959 sagði hann meðal annars:„Í krafti trúarinnar á manninn telja Sjálfstæðismenn, að einstaklingurinn skuli njóta mannhelgi, og að frumréttur hans sé frelsið, andlegt frelsi og efnahagslegt frelsi. Æðsta takmark samfélags á því að vera að veita einstaklingunum allt það frelsi, sem þeir þarfnast til þess að fá að fullu notið hæfileika sinna og mannkosta, án þess að þrengja eða óvirða rétt annarra einstaklinga eða tefla öryggi þjóðarheildarinnar í hættu. Sérhver einstaklingur er því verðmætasta eining þjóðfélagsins, en ekki sérhver stétt eða aðrar félagseiningar, eins og sumar aðrar þjóðmálastefnur vilja láta í veðri vaka.“

Hugmyndafræði stjórnlyndis sækir súrefni sitt í átök. Landsbyggð gegn höfuðborg. Landbúnaður á móti neytendum. Stétt gegn stétt. Tækifæri stjórnlyndra liggja í því að reka fleyga milli kynslóða, á milli launamanna og atvinnurekenda og ekki síst á milli karla og kvenna. Þá er alltaf hægt að réttlæta inngrip í mannlega hegðun – færa rök fyrir nauðsyn þess að barnfóstra nomenklatúrunnar sé vakin og sofin, tilbúin til að leiðrétta „rangar“ ákvarðanir. Þannig er tryggt að niðurstaðan sé í samræmi við pólitíska rétthugsun.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.