Aukið fé til hjúkrunarheimila

Samkomulag hefur tekist um mikilvægar forsendur sem varða þjónustu og rekstur hjúkrunarheimila sem rekin eru á daggjöldum. Rammasamningur til þriggja ára verður gerður á þessum grundvelli sem m.a. felur í sér aukið fé til rekstrarins. Jafnframt liggur fyrir sameiginleg bókun aðila um meðferð lífeyrisskuldbindinga.

Aðilar að samkomulaginu eru Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Samband íslenskra sveitarfélaga og Sjúkratryggingar Íslands með aðkomu velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir samkomulagið fela í sér merk tímamót: „Gangi þetta eftir eins og að er stefnt verður höggvið á marga hnúta sem valdið hafa erfiðleikum um árabil. Hjúkrunarheimilin fá traustari grunn að standa á og samskiptum ríkis og rekstraraðila þessara heimila verður komið í uppbyggilegan farveg.“

Fjárframlög aukin um 1,5 milljarð króna

Drög að rammasamningi liggja fyrir og eru aðilar sammála um að ljúka gerð endanlegs samnings fyrir 1. október næstkomandi. Gangi þetta eftir verða fjármunir til reksturs hlutaðeigandi heimila auknir um 1,5 milljarða króna á ársgrundvelli á árunum 2016 – 2018. Þar af er gert ráð fyrir 1,0 milljarði króna til að styrkja rekstrargrunn heimilanna, auknu fé til að koma til móts við aukna hjúkrunarþyngd heimilismanna á hjúkrunarheimilum og fjármunum til að auka vægi húsnæðisgjalds og samræma greiðslur, hvort sem um dvalar- eða hjúkrunarrými er um að ræða.

 Samkomulag um lífeyrisskuldbindingar

Aðilar samkomulagsins eru sammála um að bókun um lífeyrismál liggi því til grundvallar en í henni kemur fram að ríki og sveitarfélög séu sammála um að ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila sem rekin eru á ábyrgð sveitarfélaga með sambærilegum hætti og ríkið hefur yfirtekið skuldbindingar annarra hjúkrunarheimila. Unnið verður að samkomulagi um yfirtöku ríkisins á skuldbindingunum og er stefnt að því að það verði gert innan ramma heildarsamkomulags um uppgjör lífeyrisskuldbindinga milli ríkis og sveitarfélaga.

 Fyrsti samningurinn um rekstur hjúkrunarheimila

Samkomulagið sem nú liggur fyrir um gerð rammasamnings er byggt á kröfum sem liggja fyrir í drögum að kröfulýsingu fyrir öldrunarþjónustu (Kröfulýsing fyrir öldrunarþjónustu, 3. útgáfa) og skal endanleg útgáfa kröfulýsingarinnar liggja fyrir áður en rammasamningur verður undirritaður. Gangi þetta eftir verður um að ræða fyrsta heildstæða samninginn um rekstur hjúkrunarheimila sem gerður hefur verið.

 Samningsmarkmið við gerð rammasamnings fela í sér að:

·         búa til regluverk og samskiptaform milli veitanda og kaupanda þjónustunnar

·         styrkja grunnforsendur í greiðslum fyrir þjónustu í dvalar- og hjúkrunarrýmum

·         auka vægi hjúkrunarþyngdarstuðla í RAI mati

·         samræma greiðslur og auka vægi húsnæðisgjalds

·         taka með samræmdum hætti á kostnaðarþungum tilvikum.