LS hvetur konur til þátttöku í stjórnmálum

Landssamband sjálfstæðiskvenna hvetur konur til þátttöku í stjórnmálum og minnir á nauðsyn þess að bæði karlar og konur komi að ákvörðunum um málefni samfélagsins og leikreglurnar sem þar ríkja.

Nú standa prófkjör fyrir dyrum hjá Sjálfstæðisflokknum og eru konur sérstaklega hvattar til að taka þátt í þeim og bjóða fram krafta sína. Til að hafa raunveruleg áhrif að prófkjörum loknum þurfa konur að raðast í efstu sætin og vera sýnilegar í áhrifasætum framboðslista. Ekki er nóg að hafa þær bara með. Um leið og konur vantar í áhrifasæti verða listar einsleitir og síður líklegir til að ná árangri í kosningum.

Reynslan sýnir að konur staldra skemur við á vettvangi stjórnmála en karlar og því mikilvægt að halda í þær konur sem hafa þegar aflað sér reynslu á þeim vettvangi. LS fagnar þátttöku allra kvenna í prófkjörum, bæði þeirra sem taka þátt í fyrsta sinn og þeirra sem hafa tekið slaginn áður. Kona í forystusæti hefur meiri áhrif en sú sem neðar situr, fyrst og fremst sem stjórnmálamaður en einnig fyrirmynd annarra kvenna og stúlkna sem vilja láta að sér kveða.

Landssamband sjálfstæðiskvenna hvetur flokksmenn til að hafa fjölbreytni í vali á listum í huga þegar gengið er að kjörborðinu í komandi prófkjörum. Auðveldasta leiðin til að tryggja fjölbreytini á listum er að gæta að jöfnum kynjahlutföllum. Þannig göngum við til kosninga með sigurstranglega lista í öllum kjördæmum.